Elísabet Gunnarsdóttir var í gær ráðin þjálfari kvennaliðs Belgíu í knattspyrnu til sumarsins 2027.
Fyrsta verkefni hennar verður í Þjóðadeild UEFA í vetur og vor og svo EM 2025 í Sviss í sumar. Á EM verður Belgía í athyglisverðum riðli með Spáni, Ítalíu og Portúgal.
„Ég er það ný í starfi að það er ofboðslega erfitt að fara að meta einhverja möguleika á EM þegar maður er ekki búinn að kynnast leikmönnunum og sjá liðið spila í eigin persónu og undir sinni stjórn.
Við eigum alla Þjóðadeildina eftir fram að því og mætum meðal annars Spáni og Portúgal sem eru með okkur í riðli á EM. Ef þú spyrð mig eftir 2-3 mánuði verð ég örugglega með betra svar við spurningunni.
Ég vinn nú alltaf skref fyrir skref, einn dag í einu og ætla að einbeita mér mjög mikið að þessu Þjóðadeildar verkefni, kynnast leikmönnunum, kynnast sambandinu og sjá hvernig kúltúrinn er.
Hvaða stefna hefur verið fyrir, hverju við getum viðhaldið og hverju er hægt að bæta við. Ég efast ekkert um það að ég get komið með alls konar nýjungar inn og hjálpað liðinu að ná bættum árangri. En ég þarf að gefa mér smá tíma í það,“ sagði Elísabet í samtali við mbl.is.
Á EM í Sviss er sá möguleiki fyrir hendi að Belgía og Ísland mætist í átta liða úrslitum fari svo að annað liðið hafni í efsta sæti síns riðils og hitt í öðru sæti síns riðils.
„Það yrði auðvitað rosalega sérstakt augnablik ef það yrði af því. Það er náttúrlega engu líkt að spila fyrir Ísland. Ég hef stjórnað íslenska landsliðinu sem þjálfari í fjarveru Jörundar [Áka Sveinssonar] þegar hann fékk rautt spjald og ég var aðstoðarþjálfari.
Það er ótrúlega sérstök tilfinning að stýra Íslandi og þá hlýtur það að vera mjög furðulegt að mæta Íslandi. En það væri gaman, það væri ótrúlega gaman.“