Íslendingurinn á förum frá Ajax?

Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með Ajax í október.
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með Ajax í október. AFP/Maurice van Steen

Knattspyrnumaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson gæti yfirgefið hollenska úrvalsdeildarfélagið Ajax áður en janúarglugganum verður lokað.

Það er AjaxShowtime sem greinir frá þessu en Kristian, sem er 21 árs gamall, hefur aðeins komið við sögu í tíu leikjum með liðinu í öllum keppnum á tímabilinu.

Þar af hefur hann fjórum sinnum verið í byrjunarliðinu en hann hefur skorað eitt mark í hollensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Íslendingalið áhugasöm

AjaxShowtime greinir frá því að Íslendingalið Fortuna Düsseldorf hafi áhuga á miðjumanninum en þeir Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lundal Friðriksson leika með liðinu í þýsku B-deildinni.

Þá eru hollensku liðin Groningen og Sparta Rotterdam einnig sögð áhugasöm um Kristian en Brynjólfur Andersen Willumsson leikur með Groningen og Nökkvi Þeyr Þórisson er samningsbundinn Spörtu Rotterdam.

Kristian gekk til liðs við Ajax frá Breiðablik árið 2020 og á að baki 45 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað tíu mörk. Hann er samningsbundinn Ajax út keppnistímabilið 2025-26.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert