Eyðimerkurgöngu þýska liðsins RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í vetur lauk í kvöld þegar liðiið lagði Sporting Lissabon frá Portúgal að velli, 2:1, í sjöundu og næstsíðustu umferð deildarkeppninnar.
Leipzig hafði tapað öllum sex leikjum sínum og átti enga möguleika á að komast áfram en rétti aðeins sinn hlut og kom Sporting um leið í nokkur vandræði en Portúgalarnir berjast um að komast áfram.
Sporting er sem stendur í 20. sæti af 24 liðum og stendur því tæpt fyrir lokaumferðina en 24 af 36 liðum deildarinnar komast í útsláttarkeppnina.
Benjamin Sesko kom Leipzig yfir, Svíinn Viktor Gyökeres jafnaði fyrir Sporting en danski landsliðsmaðurinn Yussuf Poulsen tryggði Þjóðverjunum sigur.
Þá eygir úkraínska liðið Shakhtar Donetsk veika von um að komast áfram eftir sigur gegn Brest frá Frakklandi, 2:0. Kevin skoraði fyrra markið og Georghi Sudakov það síðara.
Shakhtar er í 27. sæti og þarf sigur í lokaumferðinni til að eiga von en Brest er í 12. sæti, fer örugglega áfram og gæti komist í hóp átta efstu sem fara beint í sextán liða úrslit.