Eins gott og það verður

Ólafur Guðmundsson er 22 ára miðvörður sem reynir fyrir sér …
Ólafur Guðmundsson er 22 ára miðvörður sem reynir fyrir sér í fyrsta sinn í atvinnumennsku hjá norska félaginu Aalesund. Ljósmynd/Aalesund

„Það er hrikalega góð tilfinning að vera kominn hingað. Það hefur verið tekið vel á móti mér. Það eru góðir leikmenn í liðinu og gott umhverfi til þess að geta orðið betri leikmaður,“ sagði knattspyrnumaðurinn Ólafur Guðmundsson í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur samdi við norska félagið Aalesund í byrjun ársins og skrifaði undir þriggja ára samning, út tímabilið 2027. Aalesund, sem leikur í B-deildinni í Noregi, keypti hann af FH þar sem Ólafur hafði leikið frá því um mitt sumar 2021.

Hann er 22 ára gamall miðvörður sem þrátt fyrir ungan aldur lék 80 leiki fyrir FH í efstu deild og skoraði sjö mörk.

„Þetta er mjög góður tímapunktur. Mér hafði fundist ég tilbúinn til þess að taka skrefið í smá tíma. Svo þegar tækifærið gafst ákvað ég að stökkva á það.“

Með betri aðstæðum

Aalesund féll úr norsku úrvalsdeildinni árið 2023 og stefndi rakleitt upp aftur á síðasta ári. Það gekk ekki eftir þar sem liðið hafnaði í níunda sæti af 16 liðum í B-deildinni og var í botnbaráttu framan af tímabilinu.

Hvað var það sem heillaði þig við Aalesund?

„Það sem heillaði mig við þetta félag er að þeir byrjuðu síðasta tímabil auðvitað mjög illa og svo kom nýtt þjálfarateymi sem er reynslumikið og gott. Eftir það fór þeim að ganga betur þannig að ég sé mikil tækifæri í liðinu og tækifæri til þess að komast upp í efstu deild,“ sagði hann.

Ólafur er mjög ánægður með aðstæðurnar hjá félaginu og segir þær töluvert stökk frá því sem hann þekkir á Íslandi.

„Það eru toppaðstæður, 10.000 manna völlur og innanhúshöll sem við æfum í á veturna. Svo æfum við úti á keppnisvellinum þegar fer að hlýna. Aðstæður eru eins góðar og þær verða á Norðurlöndunum held ég,“ sagði Ólafur.

Viðtalið við Ólaf má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert