United-sigur eftir dramatískar lokamínútur

Amad Diallo á boltanum í kvöld.
Amad Diallo á boltanum í kvöld. AFP/Oli Scarff

Manchester United hafði betur gegn Rangers, 2:1, í sjöundu og næstsíðustu umferð deildarkeppni Evrópudeildar karla í fótbolta á Old Trafford í kvöld.

United situr í fjórða sæti með 15 stig en Rangers er í 13. sæti með 11 stig.

Rangers fékk fyrsta færi leiksins á níundu mínútu. Toby Collyer tapaði boltanum klaufalega á vallarhelming United og kom Hamza Igamane með góðri stungusendingu á Nicolas Raskin en Altay Bayindir varði frá Belganum.

Skömmu síðar fékk Ridvan Yilmaz hörkufæri eftir stórkostlega fyrirgjöf frá Václav Cerný en skot hans fór beint á Bayindir.

Á 23. mínútu skallaði Matthijs de Ligt boltann í netið eftir hornspyrnu en markið var dæmt af þar sem Erik Lambrechts, dómari leiksins, taldi Leny Yoro brjóta á Robin Pröpper. 

Á 36. mínútu fékk Amad Diallo frábært færi til koma United yfir. Bruno Fernandes kom með góða sendingu inn fyrir á Diallo sem reyndi skot en Jack Butland, markvörður Rangers, sá við honum.

Markalaust í hálfleik.

Manchester United tók forystuna á 52. mínútu eftir sjálfsmark frá Butland. Christian Eriksen tók hornspyrnu inn á miðjan teiginn sem Butland kýldi inn í sitt eigið net.

Alejandro Garnacho fékk dauðafæri til að tvöfalda forystu United á 61. mínútu. Amad Diallo fann Garnacho aleinan í miðjum teignum sem átti skot í stöngina.

Stuttu síðar fékk Harry Maguire gott skallafæri eftir góða fyrirgjöf frá Eriksen úr aukaspyrnu en hann skallaði boltann framhjá markinu.

Varamaðurinn Cyriel Dessers jafnaði metin fyrir Rangers á 88. mínútu. Það kom eftir háa sendingu frá Marcus Tavernier sem Dessers tók frábærlega niður og skoraði síðan með glæsilegri afgreiðslu í fjærhornið. 

Fyrirliðinn Bruno Fernandes tryggði United sigurinn á annarri mínútu uppbótartímans. Lisandro Martínez kom með góða sendingu á Fernandes í teignum sem skoraði með skoti í fyrstu snertingu. 

Lokaniðurstaða 2:1-sigur Manchester United. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. United 2:1 Rangers opna loka
90. mín. Bruno Fernandes (Man. United) skorar +2 2:1 - Dramatík á Old Trafford! Martínez með frábæra sendingu á Fernandes sem skorar með skoti í fyrstu snertingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert