Norðmenn vilja VAR burt

Meirihluti norskra knattspyrnufélaga vill ekki sjá VAR myndbandsdómgæslu.
Meirihluti norskra knattspyrnufélaga vill ekki sjá VAR myndbandsdómgæslu. AFP/Josep Lago

Meirihluti félaganna 32 í efstu tveimur deildum norsku karlaknattspyrnunnar hafa kosið gegn því að notast verði áfram við VAR myndbandsdómgæslu í úrvalsdeildinni.

Norska dagblaðið Verdens Gang skýrir frá því að 19 af þeim 32 félögum sem eru hluti af Norskum toppfótbolta, hagsmunasamtökum félaganna í efstu tveimur deildunum, vilji losna við notkun myndbandsdómgæslu.

VAR myndbandsdómgæsla var tekin upp tímabilið 2023 en telur meirihluti félaganna að VAR í núverandi mynd virki ekki nógu vel.

Knattspyrnusambandið tekur endanlega ákvörðun

Stuðningsmenn margra þeirra eru á sama máli og hafa nokkrum sinnum skipulagt mótmæli gegn myndbandsdómgæslunni auk þess að þvinga fram frestanir á leikjum með því að fleygja aðskotahlutum inn á keppnisvelli í mótmælaskyni.

Þrátt fyrir að meirihluti félaganna sem tilheyra Norskum toppfótbolta vilji VAR á bak og burt er ekki þar með sagt að þau fái ósk sína uppfyllta.

Norska knattspyrnusambandið tekur endanlega ákvörðun á ársþingi í mars næstkomandi og hefur í yfirlýsingu sagst horfa til fleiri sjónarmiða en þeirra sem Norskur toppfótbolti hefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert