Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk rautt spjald undir lok leiks þegar lið hans Panathinaikos gerði jafntefli við Olympiacos á útivelli, 1:1, í toppslag grísku efstu deildarinnar í kvöld.
Sverrir Ingi var á sínum stað í miðri vörn Panathinaikos, sem er áfram í þriðja sæti en nú með 40 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Olympiacos.
Hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á fjórðu mínútu uppbótartíma og tekur þar með út leikbann í næsta leik.
Olympiacos hafði komist yfir með marki David Carmo snemma leiks en hann fékk svo dæmda á sig vítaspyrnu um stundarfjórðungi fyrir leikslok, sem Fotis Ioannidis skoraði úr fyrir Panathinaikos.
Costinha, leikmaður Olympiacos, hafði fengið beint rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.