Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson hefur fengið þau skilaboð frá forráðamönnum danska knattspyrnufélagsins Köbenhavn að hann megi yfirgefa félagið.
Það er danski miðillinn Tipsbladet sem greinir frá þessu en Rúnar Alex, sem er 29 ára gamall, gekk til liðs við Köbenhavn frá Arsenal í febrúar á síðasta ári.
Markvörðurinn skrifaði undir samning sem gildir út keppnistímabilið 2026-27 en hann hefur aðeins komið við sögu í einum keppnisleik með félaginu og það var í 2. umferð Sambandsdeildarinnar gegn Bruno's Magpies frá Gíbraltar þann 1. ágúst.
Markvörðurinn hefur einnig leikið með Nordsjælland, Dijon og Arsenal á leikmannaferlinum og þá hefur hann einnig leikið með OH Leuven, Alanyaspor og Cardiff City á láni frá Arsenal.
Hann á að baki 27 A-landsleiki fyrir Ísland en hann hefur ekki verið í landsliðshópnum í undanförnum verkefnum vegna lítils spiltíma með félagsliðum sínum.