Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir þreytu hafa spilað inn í þegar liðið tapaði fyrir Newcastle United, 2:0, í síðari leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.
Newcastle vann fyrri leikinn einnig 2:0 og einvígið þar með samanlagt 4:0. Um helgina vann Arsenal glæsilegan 5:1-sigur á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.
„Ég vil ekki segja þetta eftir tapleik en við vorum líkamlega þreyttir. Við höfum spilað svo marga leiki, á þriggja daga fresti. Við vissum að þessi leikur myndi einkennast af mikilli ákefð.
Tilfinningalega var þetta líka öðruvísi leikur þar sem við þurftum að trúa því allt til enda að við gætum komist áfram,“ sagði Arteta á fréttamannafundi eftir leikinn í gærkvöldi.