Brassinn sigursæli hættur

Marcelo vann Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með Real Madríd.
Marcelo vann Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með Real Madríd. AFP/Paul Ellis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Marcelo hefur lagt skóna á hilluna, 36 ára að aldri, eftir afskaplega farsælan feril.

Hann lék síðast með uppeldisfélagi sínu Fluminense í heimalandinu en var lengst af hjá Real Madríd, þar sem Marcelo vann alls 25 stóra bikara frá 2007 til 2022. Þar af vann hann Meistaradeild Evrópu fimm sinnum og spænsku deildina sex sinnum.

Marcelo er því einn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar en alls lék hann 546 leiki fyrir Real Madríd í öllum keppnum og skoraði 38 mörk.

Landsleikirnir fyrir Brasilíu urðu 58 og mörkin sex. Tók Marcelo þátt á HM 2014 og 2018 og vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og silfurverðlauna á leikunum 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert