Grammy-verðlaunahafinn Víkingur Heiðar Ólafsson var sérstakur gestur Newcastle United á St. James Park í Newcastle þegar liðið mætti Arsenal í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu í gærkvöldi.
Newcastle vann leikinn 2:0 og einvígið samanlagt 4:0 og tryggði sér þannig sæti í úrslitaleiknum á Wembley.
„Þvílíkt kvöld í Newcastle! Takk fyrir að bjóða mér á þennan magnaða leik og fyrir að hugsa svona vel um okkur. Þetta var algjörlega dásamlegt kvöld og draumur úr æsku sem rættist þar sem ég hef stutt og elskað liðið síðan ég var 11 ára gamall.
Að vinna Arsenal svo áreynslulaust og komast í bikarúrslit var einfaldlega ótrúlegt og það að fá að upplifa TRYLLTAN leikvanginn var nokkuð sem ég mun ekki gleyma,“ skrifaði Víkingur Heiðar á Instagram-aðgangi sínum.
Hann heldur tónleika í Gateshead í kvöld, sem er steinsnar frá Newcastle, og skrifaði að leikurinn í gærkvöldi hafi verið skemmtileg upphitun fyrir tónleikana.