Fyrirliðinn farinn í krabbameinsmeðferð

Leikmenn Las Palmas fagna marki í leik gegn Real Madrid …
Leikmenn Las Palmas fagna marki í leik gegn Real Madrid í síðasta mánuði. AFP/Javier Soriano

Fyrirliði Las Palmas frá Kanaríeyjum, sem leikur í efstu deild spænsku knattspyrnunnar, er kominn í veikindaleyfi þar sem hann er á leið í krabbameinsmeðferð.

Kirian Rodríguez er 28 ára gamall og hefur leikið allan sinn feril með Las Palmas og hann greindist með krabbamein sumarið 2022.

Hann hristi það af sér og mætti til leiks á ný með liðinu vorið 2023. Nú hefur meinið stungið sér niður á ný.

„Ég þarf að taka mér frí og fara í geislameðferð á ný til að berjast við sjúkdóminn. Ég vonast til að hitta ykkur öll á ný tímabilið 2025-26 og ég er viss um að félagið, leikmennirnir og þjálfarateymið munu halda okkur í 1. deildinni. Sjáumst eftir nokkra mánuði,“ sagði Rodríguez við Mundo Deportivo.

Tímabilið í vetur er það fyrsta hjá Rodríguez í efstu deild þar sem Las Palmas hefur leikið í B-deildinni frá því hann kom fyrst inn í liðið árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert