Spænski knattspyrnumaðurinn Sergio Ramos skrifaði á dögunum undir eins árs samning við mexíkóska félagið Monterrey.
Ramos, sem er 38 ára gamall, hefur verið án félags undanfarna sex mánuði eða allt frá því að samningur hans við uppeldisfélag sitt Sevilla rann út eftir síðasta keppnistímabil.
Miðvörðurinn gerði garðinn frægan með Real Madrid þar sem hann lék frá 2005 til ársins 2021 en hann varð fjórum sinnum Evrópumeistari með Real Madrid, fimm sinnum Spánarmeistari og tvívegis bikarmeistari.
Hann hefur einnig leikið með París SG og Sevilla á leikmannaferlinum en eignkona hans, Pilar Rubio, mun ekki ferðast með honum til Mexíkó.
Spænski miðillinn Marca greinir frá því að Rubio sé orðin þreytt á flutningum eftir síðustu ár og að hún verði því eftir í Madríd ásamt börnunum þeirra fjórum.