Rúbbísamband Nýja-Sjálands hefur höfðað mál gegn INEOS, fyrirtæki Íslandsvinarins og eiganda Manchester United Sir Jim Ratcliffe, vegna brota á samningi. Telur sambandið að Ratcliffe og félagar skuldi sér 22 milljónir punda.
Sambandið og INEOS komust að samkomulagi árið 2021 þess efnis að INEOS myndi styðja við bakið á rúbbísambandinu til ársins 2027 og fá auglýsingar á treyjum landsliða Nýja-Sjálands í staðinn.
INEOS og Ratcliffe sögðu sig úr samkomulaginu um áramótin og er rúbbísambandið allt annað en sátt við þá ákvörðun.
„Rúbbísambandið er mjög ósátt við ákvörðun INEOS þess efnis að standa ekki við gerða samninga. Sambandið fékk ekki greiðslu frá INEOS í janúarbyrjun eins og það reiknaði með.
Það er því ekkert annað í stöðunni en að höfða mál gegn INEOS til að vernda stöðu okkar,“ segir m.a. í yfirlýsingu sambandsins.