Var það þess virði?

Í september hófst forkeppni Íslandsmóts karla í handknattleik og henni lauk 30. mars. Á þriðjudag hófst úrslitakeppni, sem beðið hefur verið eftir í allan vetur, og fyrir þrjú lið, Þór, HK og FH, lauk henni tveimur sólarhringum síðar - í fyrrakvöld. Þá höfðu þessi félög fengið einn heimaleik allt tímabilið sem virkilega skipti máli. Hann tapaðist, og nú tekur sumarfríið við.

Þór fékk 250 áhorfendur á þennan eina alvöru heimaleik sinn á Íslandsmótinu í vetur, HK fékk 320 og FH, gamla handboltastórveldið, fékk 800. Varla eru gjaldkerar þessara ágætu félaga ánægðir með afraksturinn. Var það þess virði að bíða allan veturinn eftir þessum eina leik?

Svo virðist vera. Allt bendir til þess að gjaldkerarnir og aðrir fulltrúar félaganna muni rétta upp hönd á ársþingi HSÍ þegar tillaga um keppnisfyrirkomulag næsta tímabils verður borin upp til atkvæða. Þar verður lagt til að spila tvöfalda forkeppni í staðinn fyrir einfalda og enda á nákvæmlega sama hátt - með útsláttarkeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Hvers konar sjálfseyðingarstefna er þetta? Hvers vegna eru forráðamenn félaganna svona blindir á það sem máli skiptir í íþróttinni þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta? Hvers vegna vilja þeir halda áfram með marklitla forkeppni í sjö mánuði og reyna síðan að fá fólk til að mæta á leikina (eða leikinn) sem máli skipta þegar komnir eru páskar og grasið farið að grænka?

Nei, "þjóðaríþróttin" virðist ætla að halda áfram á sömu villigötunum um ókomin ár. "Nýtt" keppnisfyrirkomulag verður samþykkt á ársþingi HSÍ. Úrslitakeppninni, sem er að ganga af íþróttinni dauðri, hægt og bítandi, verður haldið gangandi með þeim afleiðingum að næsta vetur verður enn slegið met í fækkun áhorfenda. Handknattleiksforystan þorir ekki að stíga það eina skref sem getur bjargað íþróttinni - að taka upp alvöru deildakeppni þar sem átta félög leika í 1. deild, spila fjórfalda umferð og efsta liðið að henni lokinni er Íslandsmeistari. Þá myndu allir leikir skipta máli og grundvöllur væri fyrir því að fá áhorfendur á leikina allan veturinn og um leið jafnt og þétt peningastreymi í kassann.

Næsta mál: Þegar loksins kom að úrslitakeppninni langþráðu, gátu menn ekki verið seinheppnari með upphaf hennar. Fyrri leikir átta liða úrslitanna voru leiknir sama kvöld og stærsti leikur vetrarins í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, viðureign Real Madrid og Manchester United, og leiktíminn var meira að segja færður fram, til kl. 19.15, eins og menn vildu endilega að um árekstur yrði að ræða. Þetta kvöld fékk KA, af öllum liðum, aðeins 350 manns á heimaleik í úrslitakeppni. "Síðan trúi ég því ekki að KA-menn ætli að horfa á Meistaradeildina í fótbolta á meðan við erum að reyna að verja titilinn," sagði þjálfari KA á heimasíðu félagsins eftir leikinn. Jú, það gerðu reyndar margir þeirra, sem og stuðningsmenn annarra liða.

Og aðeins til að flétta samkeppnisíþróttinni, körfuboltanum, inn í þessa umræðu: Þar eru menn líka fastir í því fari að úrslitakeppni sé það eina rétta. Ekki meira um það. En afhverju í ósköpunum eru engin samráð á milli þeirra sem ráða ferðinni í þessum íþróttagreinum? Hvers vegna er leikur sem getur ráðið úrslitum um Íslandsmeistaratitil í körfubolta leikinn á sama kvöldi og leikir í úrslitakeppninni í handboltanum? Hvers vegna að slást um athygli fjölmiðlanna þegar auðvelt hefði verið að dreifa henni á tvö kvöld? Það var ekkert um að vera í gærkvöld - þá hefði verið tilvalið fyrir aðra hvora íþróttina að vera með sína dagskrá og njóta athyglinnar óskiptrar.

Víðir Sigurðsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert