Íslendingar vörðu titla sína í kvennaflokki og unglingaflokki og urðu í fyrsta skipti Norðurlandameistarar í opnum flokki. Ragnar Ingi Sigurðsson varð Norðurlandameistari í opnum flokki og Guðrún Jóhannsdóttir sigraði í kvennaflokki. Í opnum unglingaflokki varð Sigríður María Sigmarsdóttir í fyrsta sæti en hún sigraði einnig í unglingaflokki stúlkna.
Sævar Lúðvíksson varð Norðurlandameistari í 13-14 ára drengjaflokki og Ingibjörg Guðlaugsdóttir sigraði í 13-14 ára stúlknaflokki.
Í 10-12 ára drengjaflokki var það Andri Már Guðmundsson sem tryggði sér fyrsta sætið.
Ragnar Ingi, Norðurlandameistari í opnum flokki, var mjög sáttur við árangurinn hjá sér og öðrum Íslendingum þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.
"Ég stefndi að því að sigra í opnum flokki en þetta er í fyrsta sinn sem ég verð Norðurlandameistari í opnum flokki. Fyrst maður var á heimavelli kom ekkert annað til greina en að taka titilinn. Í heildina gekk mótið mjög vel og það var vel skipulagt í alla staði.
Það var skemmtilegt hve íslensku keppendunum gekk vel og það er glæsilegur árangur að sigra í öllum einstaklingsflokkunum. Það eru efnilegir krakkar í unglingaflokkunum, til dæmis Sigríður María sem sigrar í opnum unglingaflokki og vinnur stráka á svipuðu aldri. Hún er mikið framtíðarefni og þetta var frábær árangur hjá henni."
Á sunnudeginum fór fram liðakeppni en fimm lið tóku þátt í henni. A-lið Íslands sigraði og Finnar lentu í öðru sæti. Andri H. Kristinsson, Hróar Hugosson og Ragnar Ingi Sigurðsson kepptu fyrir hönd A-lið Íslands.
Heiðursgestir á Norðurlandamótinu voru Sophie G. Dumas Jóhannesson, sem hefur verið baráttukona fyrir framgöngu skylmingaíþróttarinnar á Íslandi, Berent Th. Sveinsson, einn af elstu skylmingarmönnum Íslands og Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness.