Íslendingar lögðu Ítali á Laugardalsvelli

Þórður Guðjónsson í baráttu við Ítali á Laugardalsvellinum í kvöld.
Þórður Guðjónsson í baráttu við Ítali á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Árni Torfason

Íslendingar unnu Ítali, 2:0, í vináttulandsleik í knattspyrnu á Laugardalsvelli, en leiknum var að ljúka að viðstöddum 20.204 áhorfendum og hafa aldrei fleiri áhorfendur verið samankomnir á einum knattspyrnuleik hér á landi. Fyrri hálfleikur var frábær af hálfu íslenska liðsins og þá skoraði það bæði mörk sín, hið fyrra gerði Eiður Smári Guðjohnsen á 17. mínútu og hið síðara Gylfi Einarsson þremur mínútum síðar. Auk þess þá átti íslenska liðið tvö góð tækifæri til að bæta við mörkum. Síðari hálfleikurinn var rólegri en sá fyrri en lengst af var íslenska liðið ráðandi aðilinn á leikvellinum.

Ítalska liðið náði aldrei að ógna verulega íslenska markinu sem lék afar skipulega frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Næst því að skora í síðari hálfleik komst Brynjar Björn Gunnarsson þegar hann átti skot með vinstri fæti í miðjum vítateig en skot hans var varið á línu. Sigurinn aldrei í hættu
Hermann Hreiðarsson, einn íslensku landsliðsmannanna, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn, að sigurinn gegn Ítölum sýndi Íslendingum hvað sé mögulegt ef Ísland ætti þjóðarleikvang sem rúmaði 15.000- 20.000 manns. „Þó að við gerðum út um leikinn á þremur mínútum í fyrri hálfleik þarf að spila mjög vel í 90 mínútur til þess að eiga möguleika á að sigra Ítali. Við höfum núna rifið okkur upp eftir stórtapið gegn Englandi fyrr í sumar. Í kvöld vorum við allir mjög hungraðir og höfðum gaman af því að verjast. Það er nú þannig að þegar íslenska liðið hefur gaman af því að verjast er alltaf möguleiki á sigri,“ sagði Hermann.

Hann sagði að Íslendingar hefðu klárlega verið betra liðið í fyrri hálfleik og náð nokkrum frábærum sóknum sem skiluðu tveimur góðum mörkum. Í síðari hálfleik hefði liðið spilað mjög skynsamlega og sigurinn í raun aldrei verið í hættu.

Fengum tvo kinnhesta
Þetta var fyrsti leikur ítalska liðsins undir stjórn Marcellos Lippis og hann bað ítalska knattspyrnuunnendur afsökunar eftir leikinn. „Við fengum tvo kinnhesta í nestið með okkur heim," sagði hann. „Fyrir næsta leik (gegn Norðmönnum í undankeppni HM) verð ég að velja þá leikmenn sem eru í besta forminu; það verður mikilvægur leikur. Ég biðst afsökunar á tapinu en ég byrja sjaldan á nýju verkefni með jákvæðum hætti," hafði AP fréttastofan eftir Lippi.

Gianluigi Buffon, markvörður Ítala, baðst einnig afsökunar á tapinu en sagði að Íslendingar hefðu verið erfiðir viðfangs. „Þótt við hefðum verið í okkar besta formi hefðum við átt í erfiðleikum með þetta lið," sagði hann við AP.

Þetta er í fyrsta skipti sem ítalskur landsliðsþjálfari byrjar með tapleik frá því Enzo Bearzot tók við ítalska liðinu árið 1977 og það tapaði fyrir Vestur-Þýskalandi. Bearzot gerði Ítala síðan að heimsmeisturum árið 1982.

Birkir Kristinsson lék kveðjulandsleik sinn í kvöld. Hann fór af …
Birkir Kristinsson lék kveðjulandsleik sinn í kvöld. Hann fór af velli í upphafi síðari hálfleiks og var vel fagnað. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert