Jenson Button verður um kyrrt hjá BAR, samkvæmt úrskurði samningsréttarráðs Formúlu-1, og getur því ekki keppt fyrir Williams á næsta ári nema um það semjist sérstaklega milli liðanna. Vann BAR þar með þrætuna um þjónustu Buttons á næsta ári.
Með þessari niðurstöðu hefur draumur Buttons um að snúa aftur til liðsins sem hann hóf feril sinn hjá snúist upp í nokkurs konar martröð. Eftir tveggja mánaða lagaþrætu stendur BAR uppi sem sigurvegari en Williamsliðið hefur beðið hnekki. Forsvarsmenn þess hafa heitið því að una niðurstöðu ráðsins.
Button gekk til samninga við Williams í byrjun ágúst og skírskotaði til ákvæða í samningi sínum en BAR-stjórinn David Richards mótmælti samningsgjörð hans við Williams og vísaði deilunni til samningsréttarráðsins. Hélt Richards því fram að Button væri bundinn BAR út árið 2005 og hefur nú verið staðfest að sú væri raunin.
Richards og Williamsstjórinn Sir Frank Williams mættu á fund ráðsins í Mílanó í síðustu viku en þeir þurftu að bíða úrskurðar þess þar til í dag.