Kylfusveinn Vijay Singh sestur í helgan stein?

Sveiflan virðist í góðu lagi hjá Vijay Singh ef marka …
Sveiflan virðist í góðu lagi hjá Vijay Singh ef marka má þessa mynd.. AP

Vijay Singh, sem náði fyrstur allra atvinnukylfinga að vinna sér inn meira en 10 millj. Bandaríkjadala á bandarísku mótaröðini í golfi, verður ekki með kylfusveininn Dave Renwick sér til aðstoðar í upphafi ársins. Renwick hefur ákveðið að taka sér frí eftir erfiða 18 mánaða skorpu með Singh en að venju fékk Renwick vel greitt fyrir starf sitt en kylfusveinar fá að öllu jöfnu 10% af verðlaunafé kylfinga.

En Singh fékk rúmlega 11 millj. Bandaríkjadali og Renwick fékk því rúmlega 1,1 millj. Bandaríkjadali í sinn hlut eða tæplega 69 millj. kr.

Þess má geta að Renwick var með hærri tekjur sem kylfusveinn en þeir kylfingar sem enduðu neðar en í 70. sæti í samanlögðu verðlaunafé á bandarísku mótaröðinni á síðasta ári.

Singh verður með á Mercedes mótinu sem fram fer á Hawaii og hefst á morgun fimmtdag en þar keppa aðeins þeir kylfingar sem sigruðu á atvinnumannamóti á bandarísku mótaröðinni á síðasta ári. Kylfusveinn efsta kylfings heimslistans verður Joey Diovisalvi sem jafnframt er þjálfari Singh.

Paul Tesori hefur verið munstraður í starf kylfusveins Singh í stað Renwick og hugsar Tesori sér eflaust gott til glóðarinnar hvað tekjuhliðina varðar en hann var áður kylfusveinn hjá Singh fram til ársins 2003 en hefur starfað með Jerry Kelly síðustu misseri. En Kelly vann sér inn rúmlerga 156 millj. kr. á síðasta ári og fékk Tesori því rúmlega 15,6 millj. kr. í sinn hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert