Joe Cole, miðjumaður Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu, bíður og vonar að Liverpool nái að slá Juventus út úr Meistaradeild Evrópu í kvöld. Sigurliðið í því einvígi mætir Chelsea í undanúrslitum keppninnar. "Ég vil ekki gera lítið úr Juventus því það er eitt af bestu liðum Evrópu, en ég vona svo sannarlega að Liverpool vinni. Margir í okkar liði eiga góða vini í herbúðum Liverpool og undanúrslitaleikir gegn þeim yrði frábær auglýsing fyrir enska knattspyrnu," sagði Cole við Evening Standard í morgun.
Cole sagði jafnframt að hann hefði verið orðinn örmagna þegar hann lagði upp markið fyrir Didier Drogba sem í raun réð úrslitum um að Chelsea komst áfram. "Ég ætlaði fyrst að halda boltanum úti við hornfánann. En ég var orðinn svo þreyttur að ég gaf hann bara fyrir markið og Didier sá um afganginn," sagði Cole.