Armstrong sagður íhuga að hætta við að hætta

Lance Armstrong skálar í kampavíni þegar hann hjólar inn í …
Lance Armstrong skálar í kampavíni þegar hann hjólar inn í París eftir að hafa unnið Frakklandshjólreiðarnar í sumar. AP

Banda­ríski hjól­reiðamaður­inn Lance Armstrong seg­ist íhuga að freista þess að vinna Frakk­lands­hjól­reiðarn­ar átt­unda árið í röð. Armstrong lýsti því yfir fyr­ir keppn­ina í sum­ar, að hún yrði hans síðasta en hann seg­ir nú að ásak­an­ir Frakka um að hann hafi neytt óleyfi­legra lyfja gætu breytt þeirri ákvörðun.

„Ég er að íhuga það," hafði blaðið Aust­in American-Statesm­an eft­ir Armstrong. „Ég held að það sé besta leiðin til að gera Frökk­un­um gramt í geði."

Armstrong seg­ir við blaðið, að hann hafi byrjað að hugsa þetta mál eft­ir að franska íþrótta­blaðið L'Equipe skýrði frá því 23. ág­úst að þvag­sýni, sem tekið var úr Armstrong árið 1999 þegar hann keppti fyrst í Frakk­lands­hjól­reiðunum, hefði nú verið rann­sakað og reynst inni­halda ster­a­lyfið EPO.

Þegar blaðið spyr Armstrong hvað hon­um sé mik­il al­vara svara hann: „Ég æfi mig á hverj­um degi."

Armstrong vann Frakk­lands­hjól­reiðarn­ar sjö­unda árið í röð nú í júlí og sagði þá að það yrði sín síðasta keppni. Armstrong full­yrðir að hann hafi aldrei tekið ster­a­lyf eða önn­ur óleyfi­leg lyf í tengsl­um við íþrótt­ina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert