Gunnar Már Elíasson kylfingur frá Bolungarvík gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Syðri-Dals velli í dag en Gunnar setti boltann ofaní á 4. braut sem er par 4 hola. Og fékk hann því það sem er kallað albatros enda lék hann brautina á þremur höggum undir pari.
Baldur Smári Einarsson formaður Golfklúbbs Bolungarvíkur sagði í samtali við mbl.is í kvöld að hann hafi verið með Gunnari í ráshóp í dag og þeir hefðu leitað lengi að boltanum og talið að hann hefði farið yfir flötina en þegar þeir litu í holuna hafi boltinn verið þar. Gunnar notaði 3-tré er hann sló upphafshöggið en brautin er um 250 metrar að lengd.
Baldur segir að sumarblíða hafi verið í Bolungarvík í dag, logn og hiti um 7 gráður. Þetta er í fyrsta sinn sem Gunnar fer holu í höggi en hann er 19 ára gamall og er með 7,6 í forgjöf en hann lék fyrri 9 holurnar í dag á 2 höggum undir pari vallar eða 34 höggum.