Belgíski kappaksturinn í Spa Francorchamps úr sögunni

Fernando Alonso á Renault á ferð í Spa í fyrrahaust.
Fernando Alonso á Renault á ferð í Spa í fyrrahaust. FRANCOIS LENOIR

Ekkert verður af því að haldið verði mót í Formúlu-1 í Spa Francorchamps í ár, að því er fyrrverandi efnahagsráðherra Vallóníuhéraðs, Serge Kubla, tjáði vallónska þinginu í dag.

Með yfirlýsingunni staðfesti Kubla fréttir hinnar frönskumælandi útvarpsstöðvar RTL að ekkert yrði úr mótshaldi í Spa í ár. Hann hefur unnið nótt sem nýtan dag í embætti að því að tryggja áframhaldandi keppni í Formúlu-1 í Belgíu þrátt fyrir að gríðarlegt tap hafi verið á mótinu undanfarin ár.

Kubla sagði menn nátengda Bernie Ecclestone hafa skýrt sér frá því að fundir alráðsins með fulltrúum héraðsstjórnarinnar - sem Kubla situr ekki lengur í - hefðu ekki skilað árangri.

Viðræðurnar hafa m.a. snúist um óhjákvæmilegar endurbætur í Spa svo brautin uppfylli númtíma skilyrði til kappaksturs. Mun tíminn vera hlaupinn frá framkvæmdaraðilum og útilokað að gera umbæturnar í ár.

Kubla segir það ekki hjálpa upp á sakirnar að ráðgerð eru 19 mót í formúlunni í ár en keppnisliðin vilji fækka þeim og Ecclestone líka. Kenndi hann núverandi stjórn Vallóníu um hvernig komið væri og sagði hana hafa brugðist alltof seint og illa við er mótshaldarar komust í fjárhagslegt þrot.

Fjárhagserfiðleikar þeirra hefðu komið upp á yfirborðið fyrir ári og þá strax hefði stjórninni borið að grípa inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert