Kimi Räikkönen hjá McLaren sagði í dag að einungis þrjú lið ættu möguleika á að fá hann sem ökuþór á næsta ári, 2007. Samningur hans við McLaren rennur út í vertíðarlok og á þessari stundu er óráðið hvað við tekur þá.
„Þegar öllu er á botninn hvolft eru ekki margar stöður sem ég vil taka við og allir vita hverjar þær eru,“ sagði Räikkönen í dag. Hann varð í öðru sæti í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra 2003 og 2005. Í fyrra skiptið á eftir Michael Schumacher og Fernando Alonso í hið síðara.
„Það eru bara þrjú lið á toppnum svo ég held það komi ekki mjög á óvart hvað sem ég vel. En ég veit ekki [hvert þeirra verður fyrir valinu], við skulum bíða og sjá,“ bætti Räikkönen við.
Alonso hefur þegar ráðið sig til McLaren á næsta ári en Räikkönen hefur ítrekað verið bendlaður við Ferrari, ýmist sem liðsfélagi Schumacher eða arftaki hans.
Renault svipast líka um eftir arftaka Alonso. Ferrari bíður svars frá Schumacher um það hvort hann hyggist keppa áfram eður ei. Liðið neitar því að hafa gert neinn samning við Räikkönen þrátt fyrir þrálátan orðróm um að hann hafi undirritað einhvers konar skuldbindingu við liðið.
McLaren vonast til að sannfæra Räikkönen um að fara hvergi og vera heldur um kyrrt. Hann segist sjálfur munu taka ákvörðun fyrir hvaða lið hann keppir á næsta ári. „Ég ræði málið við konu mína en hún ákveður ekki fyrir mig. Ég mun ræða við umboðsmenn mína um hvað við viljum gera og hvað við teljum okkur fyrir bestu.
Það eru í raun og veru ekki nema þrjú lið sem hafa undanfarin ár átt möguleika [á að vinna titil] . . . og ég held það verði ekki erfitt að gera upp á milli þeirra. Fjárhagslegur munu verður lítill hvar sem ég ræð mig og mun því ekki ráða úrslitum. Það verður margt smátt sem ákvörðun mun velta á að lokum, margt smátt. Fyrst og fremst vill maður hafa góðan bíl milli handa en maður veit aldrei hvernig næsta árs bíll verður. Maður verður bara að vona að ákvörðunin verði rétt,“ segir Räikkönen.