Ólánið eltir Ferrari við bílprófanir. Fyrst hefur veðrið komið í veg fyrir að það gæti sinnt þróunarakstri sem skyldi og í morgun raskaðist hann enn frekar er Felipe Massa klessti F2007-bílinn í Vallelunga-brautinni við Róm.
Ferrari hefur verið í Vallelunga frá því á þriðjudag en hefur ekki getað framkvæmt þær prófanir sem til stóðu vegna veðurs. Enn á ný rigndi í morgun og bætti svo ekki úr skák er Massa flaug út úr lokabeygju hringsins, Romabeygjunni, og skall á vegg.
Massa slapp ómeiddur en Ferraribíllinn skemmdist mjög að framanverðu.
Kimi Räikkönen var einnig við akstur í Vallelunga í morgun sem undanfarna daga en veðráttan hefur sömuleiðis takmarkað hann.