„Stóra atriðið sem við getum tekið með okkur úr þessum leik er að það sem við sýndum ætti að vera hvatning til leikmanna liðsins fyrir næstu leiki. Við gerðum einstaklingsmistök sem reyndust dýrkeypt en ég var ánægður með kraftinn og baráttuna í liðinu,“ sagði Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA eftir 3:2-tap liðsins á Akranesi í dag gegn Íslandsmeistaraliði FH í opnunarleik Landsbankadeildarinnar.
„Ég held að Ólafur Jóhannesson þjálfari FH hafi verið ánægður þegar dómarinn flautaði til leiksloka því við vorum líklegir til þess að jafna leikinn á lokamínútunum. Það eru veikleikar í FH liðinu sem við nýttum okkur ágætlega en ég held að við höfum komið mörgum á óvart í dag. Ég held að margir hafi átt von á stórsigri FH,“ sagði Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA eftir 3:2-tap liðsins á Akranesi í dag gegn Íslandsmeistaraliði FH í opnunarleik Landsbankadeildarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðjón tapar í fyrsta leik Íslandsmótsins sem þjálfari.
Þegar Guðjón stjórnaði ÍA í efstu deild 1987 fór hann með leikmenn sína til Hafnarfjarðar í fyrsta leik og fagnaði sigri í Kaplakrika, 1:0.
ÍA hafnaði í þriðja sæti deildarinnar þetta ár, Valur varð Íslandsmeistari.
Þegar Guðjón stjórnaði KA í fyrsta leik efstu deildar 1988 fögnuðu hann og lærisveinar sigri á Víkingum í Reykjavík, 1:0.
KA hafnaði í fjórða sæti deildarinnar þetta sumar, Fram varð Íslandsmeistari að loknu þessu sumri.
Þegar Guðjón stjórnaði ÍA í fyrsta leik í efstu deild 1992 náðu Skagamenn jafntefli gegn KR í vesturbænum, 2:2.
ÍA varð Íslandsmeistari, með þremur stigum meira en KR.
Þegar Guðjón stjórnaði KR-liðinu í efstu deild fagnaði hann og leikmenn hans stórsigri í Kópavogi í fyrsta leik, 5:0.
KR varð í fimmta sæti, ÍA varð Íslandsmeistari.
Þegar Guðjón stjórnaði ÍA í fyrsta leik deildarinnar 1996 vannst sigur á Stjörnunni á Akranesi, 3:1.
ÍA varð Íslandsmeistari, með þremur stigum meira en KR.