Danski hjólreiðakappinn Michael Rasmussen jók í dag forskot sitt í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, þegar hann kom fyrstur í mark á 16. leið. Næstur honum er Spánverjinn Alberto Contador, sem er þremur mínútum og tíu sekúndum á eftir Rasmussen. Áhorfendur sem fylgdust með í dag bauluðu á Danann, en hann er grunaður um neyslu ólöglegra lyfja í undirbúningi sínum fyrir keppnina.
Þegar keppni hófst í dag urðu átta keppnislið eftir í nokkrar mínútur í rásmarkinu, til að lýsa vanþóknun sinni yfir framgangi Alexandre Vinokourov sem féll á lyfjaprófi í gær, líkt og sagt var frá hér. Fremstu menn voru þó ekki þar á meðal.
Keppendur hjóluðu í gegnum bæinn Belegua í Navarra-héraði og þar varð sprenging rétt utan vegarins, sem ætlað er að hafi komið frá liðsmönnum ETA, aðskilnaðarhreyfingar Baska. Engum varð þó meint af sprengingunni og þetta olli litlum sem engum truflunum á keppninni.