Willum: „Þessi titill er sérstakur“

Willum Þór Þórsson fagnar sigrinum með fyrirliðanum Sigurbirni Hreiðarssyni.
Willum Þór Þórsson fagnar sigrinum með fyrirliðanum Sigurbirni Hreiðarssyni. Brynjar Gauti
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson, seth@mbl.is

„Þetta hafðist og þetta voru mjög erfiðar 90 mínútur. Ég var aldrei öruggur með titilinn fyrr en dómarinn flautaði af,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Vals eftir að liðið fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í dag á Laugardalsvelli eftir 1:0-sigur gegn HK í lokaumferðinni. „Það er aldrei hægt að slappa af í stöðunni 1:0 gegn liði eins og HK.“

Willum hefur áður fagnað Íslandsmeistaratitli sem þjálfari en hann segir að sú tilfinning sem fylgi því að sigra á Íslandsmótinu sé alltaf eins. „Þessi titill er sérstakur. Það er 20 ár frá því að Valur varð síðast meistari og það hefur því verið mikil spenna í herbúðum liðsins að undanförnu,“ sagði Willum.

Spennufall hjá fyrirliðanum

Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Vals var að vonum kátur í leikslok en hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með félaginu undanfarin ár. „Við erum búnir að bíða lengi eftir þessum titli. Og þar sem að biðin hefur verið löng er þetta mun meiri upplifun. Það var gríðarleg einbeiting í leikmannahópnum og menn ætluðu sér að ná þessum titli. Spennufallið er því mikið núna rétt eftir leikinn,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Valsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert