Chris Simon sóknarmaður bandaríska
íshokkíliðsins New York Islanders í
NHL-deildinni var í dag úrskurðaður í 30 leikja keppnisbann vegna atviks sem
átti sér stað um s.l. helgi. Þetta er lengsta keppnisbann leikmanns í NHL-deildinni
frá upphafi en Simon átti sjálfur fyrra metið sem var 25 leikir.
Simon steig harkalega á hásin Jarkko Ruutu leikmanns Pittsburgh þar sem að leikmaðurinn lá á ísnum og tóku forráðamenn NHL-deildarinnar hart á málinu. Simon hefði vel getað skorið hásin Ruutu í sundur þegar atvikið átti sér stað. Simon mun fara í meðferð á vegum deildarinnar þar sem að hegðun hans og skapofsi verður aðalumræðuefnið en hann er 35 ára gamall.
Hann missti af fyrstu 5 leikjum tímabilsins þar sem hann tók út leikbann frá því í mars á síðustu leiktíð en þá fékk hann 25 leikja keppnisbann sem var met á þeim tíma í NHL-deildinni.