Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í badminton, hefur valið landsliðið sem keppir á Evrópumóti kvenna og karla liða í Hollandi 10.- 16. febrúar n.k.
Kvennaliðið skipa þær Katrín Atladóttir, Ragna Ingólfsdóttir, Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir. Katrín hefur alls leikið 16 landsleiki fyrir Íslands hönd, Ragna 36, Sara 34 og Tinna 15. Sara hefur tekið sér frí frá landsliðsverkefnum undanfarin misseri. Mótið gefur stig á heimslista og er því mikilvægt fyrir Rögnu Ingólfsdóttur í baráttunni við að komast á Ólympíuleikana í Peking í sumar.
Í karlaliðið voru valdir þeir Atli Jóhannesson, Helgi Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason og Tryggvi Nielsen. Atli er nú í annað sinn valinn í íslenska A-landsliðið í badminton en hann var einnig í liðinu þegar það sigraði á Evrópukeppni B-þjóða í Laugardalshöll í janúar 2007. Hann spilaði þó aðeins einn leik í þeirri keppni. Aðrir leikmenn karla liðsins eru töluvert reynslumeiri og hafa verið í landsliðinu um nokkurra ára skeið. Helgi hefur leikið 33 landsleiki fyrir Íslands hönd, Magnús Ingi 17 og Tryggvi 35.
Evrópumót kvenna og karla liða er mjög krefjandi mót fyrir íslenska landsliðið enda keppa þar allar bestu þjóðir Evrópu. Leikið er í riðlum og aðeins efsta liðið í hverjum riðli kemst áfram í útsláttarkeppni mótsins. Það verður að telja harla ólíklegt að íslensku liðin nái að sigra sína riðla en vonir eru bundnar við það að þau geti orðið í 2.-3.sæti í sínum riðlum.