Vinstri fóturinn tekinn af Lanzinger

Sjúkraliðar fara með Lanzinger af slysstaðnum í Kvitfjell.
Sjúkraliðar fara með Lanzinger af slysstaðnum í Kvitfjell. AP

Lars Engebretsen, læknir við sjúkrahúsið í Osló, sagði í morgun við norska ríkisútvarpið að austurríski skíðamaðurinn Matthias Lanzinger muni missa neðsta hlutann af vinstri fæti eftir slys sem hann varð fyrir á heimsbikarmóti í risasvigi í Kvitfjell um helgina.

Lanzinger hefur gengist undir aðgerðir á Ullevaal háskólasjúkrahúsinu á undanförnum dögum en hann hlaut opið beinbrot á vinstri fæti eftir að hann féll í brautinni. Lanzinger fékk einnig mikið höfuðhögg í slysinu og hefur honum verið haldið sofandi frá þeim tíma. Talið er að öryggisfestingar á vinstra skíði Lanzinger hafi bilað enda losnaði skíðið ekki af við fallið.

Engebretsen sagði að sérfræðingur frá Austurríki hafi komið til Noregs og tekið þátt í aðgerðunum en án árangurs.

„Það lítur út fyrir að fóturinn á Lanzinger hafi snúist í nokkra hringi eftir að hann brotnaði. Blóðrásarkerfið var því illa farið við brotsvæðið og beinbrotið  var mun alvarlegra en í fyrstu var talið,“  sagði Engebretsen.

Myndbrot frá atvikinu á NRK. 

Lanzinger mun fara í aðgerð í dag þar sem að neðsti hluti vinstri fótar hans verður tekinn af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert