Lögfræðingur vill fá fótinn sem sönnunargagn

Þessi mynd var tekin af Matthias Lanzinger í brekkunni í …
Þessi mynd var tekin af Matthias Lanzinger í brekkunni í Kvitfjell rétt áður en slysið átti sér stað. Reuters

Manfred Ainedter lögfræðingur í Austurríki, sem starfar fyrir fjölskyldu skíðamannsins Matthias Lanzinger, hefur óskað eftir því að fótur skíðamannsins verði varðveittur sem væntanlegt sönnunargagn.

Taka þurfti neðsta hluta af vinstra fæti Lanzinger af á sjúkrahúsi eftir slys sem hann varð fyrir á heimsbikarmóti í Kvitfjell um s.l. helgi í Noregi. „Við erum að safna upplýsingum um allt sem gerðist á þessum degi. Það þarf því að afla sönnunargagna og fóturinn sem var fjarlægður af Lanzinger er að okkar mati sönnunargagn sem þarf að varðveita,“ sagði Ainedter.

Gagnrýna mótshaldara 

Hans Pum, formaður austurríska skíðasambandsins í alpagreinum, hefur gagnrýnt mótshaldara í Kvitfjell í Noregi fyrir að hafa ekki verið með sjúkraþyrlu til taks við keppnisstaðinn. Pum segir að Lanzinger hafi beðið í 5 tíma áður en hann fór í aðgerð á Ullevål háskólasjúkrahúsinu í Osló.

Þyrlan flaug fyrst með skíðamanninn á sjúkrahúsið í Lillehammer og telur Pum að það hafi verið mistök sem gætu hafa leitt til þess að taka þurfti fótinn af Lanzinger. Á sjúkrahúsinu í Lillehammer var ljóst að Lanzinger fengi ekki þá meðferð sem hann þurfti og því var flogið með hann til Osló.

Forráðamenn alþjóða skíðasambandsins, FIS, munu á næstu vikum fara yfir það sem gerðist í Kvitfjell en talsmaður mótshaldara í Noregi segir að keppnisstaðurinn hafi uppfyllt allar kröfur og reglugerðir FIS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka