Suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius, sem missti báða fæturna á unga aldri en notar gervifætur frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, fær ekki draum sinn uppfylltan að keppa á Ólympíuleikunum í Peking í næsta mánuði.
Pistorius mistókst í fyrrakvöld að vinna sér keppnisréttinn í 400 metra hlaupi á úrtökumóti þegar hann kom í mark á 46,25 sekúndum en lágmarkið var 45,55 sek. Hann hélt hins vegar í þá von að verða boðið að vera í boðhlaupssveit Suður-Afríkumanna í 4x400 metra hlaupinu á leikunum en varð ekki að ósk sinni.
Í dag greindi Leonard Chuene, forseti frjálsíþróttasambands Suður-Afríku, frá því að Pistorius hefði ekki orðið fyrir valinu og muni þar af leiðandi ekki keppa á Ólympíuleikunum þar sem fjórir aðrir hlauparar eru með betri tíma en Pistorius.