Björn Róbert Sigurðarson, 14 ára gamall íshokkímaður úr Skautafélagi Reykjavíkur, fór í gær til Svíþjóðar, hvar hann mun spila með U15 ára liði Malmö Redhawks út þetta keppnistímabil. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Björn leikið með meistaraflokksliði SR í vetur.
Sjálfur segist Björn stefna á atvinnumennsku í framtíðinni og segist hvergi banginn við Svíana.
„Alls ekki, það er frekar tilhlökkun hjá mér. Þetta er feikigott lið og frábær aðstaða hérna. Þeir spila tvo leiki í viku og ég ætla að reyna að komast í byrjunarliðið sem fyrst. Svo kemur bara í ljós í lok apríl hvernig framhaldið verður, en annars er það bara atvinnumennskan, þó það séu enn nokkur ár í það,“ segir Björn, sem spilar stöðu framherja, en hann þykir ráða yfir mikilli tækni á svellinu.