Hinn 15. og 16. ágúst síðastliðinn fór fram Íslandsmótið í haglabyssuskotfimi, eða Skeet, á skotsvæðinu í Ölfusi, en mótið hélt Skotíþróttafélag Suðurlands. Sigurþór Jóhannesson, Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar, stóð uppi sem sigurvegari, en hann „plaffaði“ niður 116 leirdúfur af 125 til að komast í undanúrslitin, hvar hann bar sigur úr býtum með 23 stig, á undan Gunnari Gunnarssyni sem varð í öðru sæti með 22 stig.
„Ég byrjaði að stunda þetta 2002, en af alvöru ári seinna. Þetta er mikil vinna og æfing. Það er enginn meðfæddur hæfileiki í þessu sporti sem gerir það mjög skemmtilegt. Það hjálpar auðvitað til að hafa stundað aðrar íþróttir, svona upp á samhæfingu líkamans, en annars er þetta bara æfing. Það eru frekar endurteknar hreyfingar í þessu sporti og því þarf maður að vera vel upplagður andlega, einnig og með hausinn í lagi,“ segir Sigurþór. En engin er skyttan án byssu.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.