Skautafélag Akureyrar sigraði Björninn, 4:2, í fyrsta leiknum á Íslandsmóti karla í íshokkí sem fram fór á Akureyri í kvöld.
Í byrjun leit útfyrir að um mikinn markaleik yrði að ræða því strax á 3. mínútu kom Rúnar F. Rúnarsson heimamönnum í SA yfir eftir mikinn atgang í vítateig Bjarnarmanna.
Um þremur mínútum síðar jafnaði Úlfar Jón Andrésson metin fyrir Björninn, 1:1.
Orri Blöndal kom SA-mönnum yfir á ný um miðja fyrstu lotu með góðu skoti en áður en lotunni lauk jafnaði Úlfar Jón með glæsilegu skoti uppí vinkilinn. Staðan var því 2:2 eftir fyrstu lotu.
Ingvar Þór Jónsson náði að skora fyrir SA, 3:2, þegar fimm mínútur voru eftir af annari lotu.
Í þriðju lotu reyndu Bjarnarmenn sitt ítrasta til að jafna metin en allt kom fyrir ekki og þegar um 40 sekúndur voru eftir innsiglaði Andri Freyr Sverrisson sigur SA með skondnu marki, 4:2.