„Baráttuandinn var til staðar“

Daniel Aedel í leiknum gegn Nýja Sjálandi í dag.
Daniel Aedel í leiknum gegn Nýja Sjálandi í dag. mbl.is/Kristján Maack

„Stemningin var mjög góð í hópnum og baráttuandinn var til staðar. Leikmenn hvöttu hverja aðra áfram og það var virkilega gaman að spila þennan leik,“ sagði Daniel Aedel sem valinn var maður leiksins þegar Ísland sigraði Nýja Sjáland 3:1 á HM í íshokkí í Eistlandi í dag. 

„Þessi leikur þróaðist nú nokkurn veginn eins og ég bjóst við. Það er erfitt að spila á móti Nýja Sjálandi en okkur tókst að halda okkur við leikskipulagið, sérstaklega í upphafi leiks og aftur á lokamínútunum. Um miðbik leiksins fórum við kannski aðeins út úr leikskipulaginu og þá vorum við ekki mjög traustvekjandi. Við undurbjuggum okkur vel fyrir mótið. Mörg þeirra atriða sem við höfum lagt áherslu á undanfarið voru að ganga vel í þessum leik. Aðalatriðið fyrir okkur var að halda okkur við leikskipulagið. Það þýðir ekki að hugsa of mikið um hvort andstæðingurinn sé sterkari eða veikari á pappírunum,“ sagði Daniel í samtali við mbl.is þegar sigurinn var í höfn.

Daniel sagðist ekki hafa fundið fyrir taugaspennu hjá leikmönnum þrátt fyrir að um fyrsta leik í keppninni væri að ræða. „Við lékum æfingaleik á miðvikudagskvöldið á meðan á æfingabúðunum í Svíþjóð stóð. Æfingaleikurinn tók eiginlega hrollinn úr mönnum og menn tóku taugaspennuna út þá. Við æfðum mjög vel í Svíþjóð og ég held að það séu allir mjög vel stemmdir.“ sagði Daniel Aedel sem býr og spilar í Svíþjóð en á íslenska móður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka