Skemmtilegt var að verða vitni að því þegar íslenski fáninn var dreginn að húni undir íslenska þjóðsöngnum að loknum sigri Íslands á Nýja Sjálandi í Narva í Eistlandi í dag.
Þjóðsöngvar liðanna voru ekki leiknir fyrir leikinn eins og gjarnan tíðkast í kappleikjum á milli þjóða. Hins vegar voru liðin látin stilla sér upp á ísnum að leiknum loknum og snúa að fána sigurliðsins um leið og hann var dreginn að húni undir þjóðsöng sigurliðsins.
Íslensku landsliðsmennirnir tóku vel undir og sungu hástöfum ljóð séra Matthíasar Jochumssonar við lag Sveinbjarnar Sveinbjarnarsonar.