„Leikur sem við urðum að vinna“

Richard Eiríkur Tahtinen er þjálfari Íslands.
Richard Eiríkur Tahtinen er þjálfari Íslands. mbl.is/Kristján Maack

Richard Eiríkur Tahtinen, þjálfari Íslands, var ánægður með frammistöðuna gegn Nýja-Sjálandi í fyrsta leiknum í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí en riðill Íslands er leikinn í Narva í Eistlandi. Íslandi sigraði 3:1 og tyllti sér í toppsæti B-riðils. 

Ísland á að vera með sterkara lið en Nýja-Sjáland á pappírunum margfrægu og Richard sagði því um hálfgerðan skyldusigur að ræða. „Að vissu leyti er fargi af manni létt. Bæði var þetta fyrsti leikur í keppninni en einnig af því að þetta var leikur sem við urðum að vinna og það setur ávallt pressu á menn. Tilfinningin er því mjög góð að hafa landað þessum sigri,“ sagði Richard í samtali við mbl.is að leiknum loknum.

Íslenska liðið dvaldi í æfingabúðum í Svíþjóð síðustu vikuna og æfði þar af krafti. Liðið fékk í rauninni ekki frídag því í gær var bæði ferðast yfir til Eistlands og æft í keppnishöllinni. Hvernig leit liðið út að mati þjálfarans eftir það sem á undan er gengið? „Mér fannst við búa yfir góðum hraða og þegar við vorum leikmanni færri á svellinum þá höfðu menn næga orku til þess að pressa. Mér fannst frekar að taugarnar hafi verið þandar fullmikið á köflum en einnig vantaði smávegis upp á samæfingu, þ.e.a.s að finna réttu blönduna af leikmönnum hverju sinni,“ sagði Richard en mjög ört er skipt um útileikmenn í íshokkí og allir 18 útileikmenn Íslands komu við sögu í leiknum.

Richard á íslenska móður og finnskan föður. Hann hefur verið landsliðsþjálfari í tvö ár og var aðstoðarþjálfari tvö ár þar á undan. Richard segir í Morgunblaðinu í dag að Ísland ætli sér eitt af þremur efstu sætum riðilsins sem yrði besti árangur Íslands frá því að landsliðinu var komið á koppinn árið 1999. Hann setur dæmið þannig upp að leikirnir gegn Eistlandi og Rúmeníu verði afar erfiðir en viðureignirnar gegn Kína og Ísrael verði 50/50 leikir.

„Já mér finnst allir helstu þættir í leik liðsins vera í lagi og við erum á réttri leið en það eru enn fjórir leikir eftir. Leikurinn gegn Rúmeníu á morgum verður rosalega erfiður og þar munum við gera okkar besta. Í kjölfarið fáum við einn frídag áður en við mætum Kínverjum og það verður næsta hindrun í áttina að verðlaunum.“

Ísland hafði betur í baráttunni við Nýja-Sjáland í dag.
Ísland hafði betur í baráttunni við Nýja-Sjáland í dag. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka