Óskabyrjun Íslands á HM í Eistlandi

Ísland hafði betur í baráttunni við Nýja-Sjáland í dag.
Ísland hafði betur í baráttunni við Nýja-Sjáland í dag. mbl.is/Kristján Maack

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí mætti Nýja Sjálandi í fyrsta leik sínum í 2. deild heimsmeistarakeppninnar í Narva í Eistlandi klukkan 10. Ísland byrjaði vel og sigraði 3:1 með tveimur mörkum frá Jónasi Breka Magnússyni og einu frá fyrirliðanum Ingvari Jónssyni. Á morgun mætir Ísland sterku liði Rúmena. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Mörk Íslands: Jónas Breki Magnússon 2, Ingvar Jónsson 1.

Stoðsendingar: Jón B. Gíslason og Daniel Aedel.

Maður leiksins hjá Íslandi: Daniel Aedel.

60. mín: LEIK LOKIÐ. Ísland sigraði verðskuldað 3:1 og tekur forystuna í riðlinum. 

57. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Jónas Breki Magnússon var að innsigla sigur Íslands með glæsilegu marki úr skyndisókn. Komst meðfram battanum, hristi af sér varnarmann, lék á markvörðinn smellti pökknum upp í þaknetið. 

52. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Leikurinn er í jafnvægi sem stendur. Birkir Árnason átti ágætt skot af löngu færi í stöngina á marki Nýja Sjálands á 48. mínútu. Ísland er átta mínútum frá sigri í fyrsta leik mótsins.

45. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Nýja Sjáland minnkaði muninn á 45. mínútu og hleypti spennu í leikinn á ný. Emil Alengaard fékk högg á andlitið og tapaði pökknum, Ný Sjálendingar brunuðu upp völlinn í skyndisókn og skoruðu úr dauðafæri.  Blóðugt fyrir Ísland þar sem Íslendingar voru manni fleiri.  Stuðningsmenn Nýja Sjálands taka nú hressilega við sér. Þeir eru nokkrir á vellinum með fána og trommur. Vel af sér vikið í ljósi þess að ferðalagið á mótsstaðinn tekur þá 30 klukkutíma.

40. mín: Staðan er 2:0 fyrir Ísland að loknum tveimur leikhlutum og því þriðjungur eftir af leiknum. Ísland verður leikmanni fleira í rúma mínútu í upphafi þriðja leikhluta og því tækifæri til þess að gera út um leikinn. Heilt yfir þá er greinilega meiri geta til staðar í íslenska liðinu en leikmenn Nýja Sjálands hafa í mörgum tilfellum meiri líkamlega burði. 

35. mín: Staðan er 2:0 fyrir Ísland og vænkast nú hagur okkar verulega. Ingvar fyrirliði Jónsson skoraði á 35. mínútur eftir stoðsendingu frá Daniel Aedel.

32. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Dómarar leiksins eru iðnir við að reka Íslendinga í kælingu.  Daniel Aedel er nýkominn úr kælingu og þá er Matthías Sigurðarson sendur í kælingu. Dennis Hedström var að verja frá Ný Sjálendingum í algeru dauðafæri.

25. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Stíf pressa íslenska liðsins á upphafsmínútum annars leikhluta bar árangur á 25. mínútu þegar Jónas Breki Magnússon skoraði af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Jóni B. Gíslasyni. Fyrsta markið komið og viss léttir fyrir Íslendinga að hafa brotið ísinn í mótinu ef þannig má að orði komast.

20. mín: Staðan er 0:0 að loknum fyrsta leikhluta. Ísland hefur spilað á öllu liðinu í fyrsta leikhluta og það gæti komið sér vel þegar líður á leikinn. Ísland hefur fengið þrjár brottvísanir en Nýja Sjáland tvær. Jón B. Gíslason og Jónas Breki Magnússon voru báðir sendir í kælingu með stuttu millibili um miðbik leikhlutans. Íslendingum hefur hins vegar gengið mjög vel að verjast manni færri. Ísland var manni fleiri síðustu mínútu fyrsta leikhluta og verður áfram fyrstu mínútna í öðrum leikhluta. Emil Alengaard og fyrirliðinn Ingvar Jónsson áttu báðir ágætar skottilraunir á lokamínútu leikhlutans en markvörður andstæðinganna sá við þeim.

10. mín: Staðan er 0:0. Birkir Árnason komst næst því að skora fyrir Ísland þegar hann átti þrumuskot í samskeytin á 8. mínútu. Skömmu síðar var Arnþór Bjarnason sendur í 2 mínútna kælingu en Ísland hélt hreinu. Dennis Hedström varði á þeim kafla frábærlega í marki Íslands í tvígang. 

5. mín: Staðan er 0:0. Ný Sjálendingar misstu mann af velli í 2 mínútur en Íslendingum tókst ekki að nýta sér það. Egill Þormóðsson fékk besta færið en markvörður Ný Sjálendinga varði ágætlega frá honum. Íslendingar sækja mun meira fyrstu 5 mínúturnar. 

Skautahöllin í Jarva er nokkuð heimilisleg fyrir Íslendinga. Tekur innan við þúsund manns í sæti. Fáir áhorfendur eru í höllinni þegar 5 mínútur eru í leik. Fyrst og fremst fulltrúar hinna þjóðanna sem eru að keppa og ætla að virða fyrir sér styrkleika Íslands og Nýja Sjálands.

Allir leikirnir í B-riðli fara farm í Jååhall skautahöllinni í Jarva. Leikur Íslands og Nýja Sjálands er fyrsti leikurinn í keppninni. 45 mínútur eru í leik og eru leikmenn að skauta út á nýbónað svellið til þess að hita upp .

Ísland hefur nokkrum sinnum mætt Nýja Sjálandi í HM og aldrei tapað en viðureignirnar hafa yfirleitt verið nokkuð jafnar. Síðast mættust liðin á HM í Ástralíu 2008 og sigraði Ísland 6:3. Í herbúðum íslenska liðsins er lagt upp með að landa sigri í leiknum sem myndi gefa liðinu góðan meðbyr fyrir framhaldið. Á morgun mætir Ísland sterku liði Rúmeníu sem býr að góðri íshokkíhefð. 

Íslenski hópurinn kom til Jarva í gær eftir að hafa verið í æfingabúðum í Svíþjóð. Ísland leikur í B-riðli með Ný Sjálendingum, gestgjöfunum Eistum, Kínverjum, Ísraelum og Rúmenum. 

Úr leik Íslands og Nýja-Sjálands í dag.
Úr leik Íslands og Nýja-Sjálands í dag. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka