Ingvar Jónsson, fyrirliða íslenska landsliðsins í íshokkí, fannst 3:8 tapið gegn Rúmeníu á HM í Eistlandi í dag ekki gefa rétta mynd af getu liðanna.
„Ég hefði nú viljað gera betur. Við megum svo sem ekki gleyma því að þeir voru í 1. deild í fyrra og það er ekki langt síðan við vorum í 3. deild. Þegar maður er inni á vellinum og er að spila á móti þeim þá finnst manni munurinn ekki eiga að vera svona mikill,“ sagði Ingvar í samtali við mbl.is og færði rök fyrir þeirri skoðun sinni. „Munurinn liggur bara í smáatriðum og við megum ekki missa einbeitingu eitt augnablik. Þeir eru ekki sterkari á skautum eða betri með kylfuna. Munurinn liggur í einbeitingunni og þeim þáttum þegar menn eru ekki með pökkinn. Okkur skorti meiri hreyfanleika,“ sagði Ingvar og gat ekki neitað því að staðan hafi verið erfið eftir að Rúmenar skoruðu tvívegis á fyrstu 9 mínútum leiksins.
„Það er leiðinlegt að fá á sig ódýr mörk í upphafi leiks. Við gerðum hvað við gátum og á köflum áttum við fínan varnarleik þegar við vorum manni færri. Dennis stóð sig einnig vel í markinu og það er bara mjög flott að ná að setja þrjú mörk á þá. Ég var mjög ánægður með sóknarleikinn og það er frekar varnarleikurinn sem við getum bætt að mínu mati,“ sagði fyrirliðinn ennfremur.