Emil Alengaard: Þetta var alvöru leikur

Emil tekur á móti viðurkenningu fyrir að vera valinn maður …
Emil tekur á móti viðurkenningu fyrir að vera valinn maður leiksins. mbl.is/Kristján Maack

Emil Alengaard var valinn maður leiksins hjá Íslandi þegar íslenska landsliðið í íshokkí skellti Kína 3:1 á HM í Eistlandi í dag. Er þetta í fyrsta skipti sem A-landsliðið leggur Kína að velli í íshokkí og sigurinn gefur möguleikanum á 3. sætinu í riðlinum byr undir báða vængi.

„Þetta var alvöru leikur. Ég er búinn að bíða eftir þessum leik í mánuð. Kínverjarnir voru eitthvað að reyna að tala ensku til þess að æsa okkur upp. Maður svaraði þeim bara og svo var ekkert meira með það. Það voru frekar þeir sem misstu jafnvægið og urðu pirraðir,“ sagði Emil við mbl.is að leiknum loknum. Emil sagði samvinnu liðsins hafa verið til fyrirmyndar.

„Við vorum ekkert að bakka. Við vorum tilbúnir að berjast og vinna þetta saman. Við erum með yngra lið en Kína en erum samt orðnir betri en þeir. Leikurinn gegn þeim í fyrra var jafn en þá skorti okkur reynslu til þess að klára dæmið. Núna vissum við hvað þeir ætluðu að gera og tókst að sjá við þeirra aðgerðum,“ sagði Emil og bætti því við að bronsverðlaunin væru ekki í hendi. Ísland leikur gegn Eistlandi á morgun og Ísrael á föstudaginn.

„Við erum miklu betri en Ísrael. Við þurfum hins vegar að ná að núllstilla okkur og fara að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Eistum á morgun. Við erum ekki búnir að vinna bronsið því við þurfum að vinna einn leik í viðbót.“ 

Emil Alengaard var valinn maður leiksins gegn Kína.
Emil Alengaard var valinn maður leiksins gegn Kína. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka