Sigurður gæti verið nefbrotinn

Sigurður Sveinn Sigurðsson í kunnuglegri stöðu í leiknum gegn Nýja …
Sigurður Sveinn Sigurðsson í kunnuglegri stöðu í leiknum gegn Nýja Sjálandi. mbl.is/Kristján Maack

„Það gekk allt saman eftir sem við lögðum upp með. Þjálfararnir voru með gott plan og við fylgdum því vel eftir,“ sagði Sigurður Sveinn Sigurðsson, aldursforseti íslenska landsliðsins í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir einstaklega sætan 3:1 sigur á Kínverjum á HM í Eistlandi í dag. 

Ísland hafði tapað eins naumlega og mögulegt var fyrir Kínverjum í síðustu tveimur keppnum. Eftir vítakeppni fyrir tveimur árum og á gullmarki í framlengingu í fyrra. 

„Við erum búnir að bíða lengi eftir þessari stundu.  Það small allt saman hjá okkur og núna kom sigurinn loksins. Við erum bara að síga fram úr þeim og það er ekki slæmt enda eru þetta allt atvinnumenn sem eru reknir af kínverska ríkinu. Við erum að síga fram úr þeim og erum farnir fram úr,“ sagði Sigurður. 

Leikurinn var mjög harður og Kínverjar beittu alls kyns bellibrögðum. Sigurður fór ekki varhluta af því enda fór hann blóðugur út af um stund. Fyrirliði Kínverja lamdi Sigurð í andlitið með kylfunni og var rekinn í bað. Sigurður kippti sér ekki mikið upp við það enda fór hann aftur inn á. „Ég gæti verið nefbrotinn en þetta var fínt því það var gott að losna við hann. Ég ætlaði bara að tækla hann og hann barði mig í andlitið. Það var bara gaman að þessu og ekki í fyrsta skiptið sem ég lendi í þessu,“ sagði Sigurður léttur og sver af sér að hafa æst Kínverjann upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka