Erfiður leikur hjá Íslendingum í kvöld

Baráttan var mikil í leik Íslands og Kína í gær.
Baráttan var mikil í leik Íslands og Kína í gær. mbl.is/Kristján Maack

Ísland mætir firnasterku liði heimamanna klukkan 17 í kvöld að íslenskum tíma á HM í íshokkí í Eistlandi. Leikurinn er kl 20 að staðartíma en heimamenn leika alla sína leiki klukkan 20. Þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína með gífurlegum yfirburðum.

Eistar unnu Nýja-Sjáland 17:0 í gærkvöldi og Ísraelar fengu rosalegan skell gegn Rúmenum. Rúmenía sigraði 20:0 en Ísland mætir Ísrael á föstudaginn. 

Eistland og Rúmenía eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Ísland er í þriðja sæti með tvo sigra og eitt tap. Nýja-Sjáland er í fjórða sæti en Kína og Ísrael eru án stiga. Kínverjar eru búnir að mæta þremur efstu liðunum og eiga því væntanlega eftir að ná einhverjum stigum gegn Nýja-Sjálandi og Ísrael. 

Eitt  lið fer upp í 1. deild og eitt lið fellur niður í 3. deild. Eistar og Rúmenar takast á í síðustu umferð á föstudag en Eistar þykja líklegri til þess að fara upp þrátt fyrir að Rúmenía hafi verið að koma niður úr 1. deild.

Ísrael þykir líklegast til þess að fara niður. Þeir mættu aðeins með 15 leikmenn á meðan önnur lið eru með 20. Ísrael tapaði gegn Nýja-Sjálandi en það var leikur sem þeir ætluðu sér að vinna til þess að halda sæti sínu í deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert