Gamla ljósmyndin: Í sigtinu

Morgunblaðið/KÖE

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á dögunum var greint frá því að skotíþróttamaður­inn Há­kon Þór Svavars­son verði meðal keppenda á Ólympíuleikunum í París síðar í sumar en hann mun keppa í leir­dúfu­skot­fimi með hagla­byssu.

Árið 1992 keppti Carl J. Eiríksson í skotfimi á Ólympíuleikunum í Barcelona og var þá 63 ára gamall. Carl var þá orðinn reyndur keppnismaður eins og gefur að skilja en hann keppti í 50 metra riffilskotfimi liggjandi. Carl fékk 583 stig í Barcelona en hefði þurft 597 stig til að komast í 8-manna úrslit. 

Meðfylgjandi mynd er 44 ára gömul og var tekin á Íþróttahátíð ÍSÍ sumarið 1980 og birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 1980. Kristján Einarsson tók myndina af Carli í keppninni en Carl sigraði í sinni grein. 

Skrif Morgunblaðsins með myndbirtingunni eru skemmtileg en á þessum tímapunkti var skotfimi nýlega farin að vekja athygli hérlendis:

„Skotfimi er býsna merkileg íþrótt. Er hún í slíkum hávegum höfð, að lengst af hefur hún verið keppnisgrein á Ólympíuleikunum. Hér á landi hefur vegur hennar ekki verið sérlega mikill en þó ávallt nokkrir sem hana stunda. Vinsældir þessarar íþróttar hafa hins vegar aukist hérlendis,“ skrifaði blaðið. 

Carl J. Eiríksson var ein besta riffilskytta landsins setti fjölmörg Íslandsmet í skotfimi. Varð hann jafnframt margfaldur Íslandsmeistari en Carl keppti fyrir Skotfélag Reykjavíkur og síðar Skotfélagið Baldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert