Sekúnduslagur á fyrri keppnisdegi Rally Reykjavík

Ingvi Björn og Adam Máni á fullri ferð á Dómadalsleið …
Ingvi Björn og Adam Máni á fullri ferð á Dómadalsleið í gærkvöldi. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Ingvi Björn Birgisson og Adam Máni Valdimarsson á Subaru Impreza hafa forystu í Rally Reykjavík að loknum fyrri keppnisdegi. Eknar voru fjórar sérleiðir í nágrenni Heklu í gærkvöldi.

Það var slegist um hverja sekúndu framan af keppninni en að lokinni fyrstu sérleið voru þrjár áhafnir jafnar í fyrsta sæti. Þeir Ingvi og Adam náðu hins vegar besta tímanum á annarri sérleið og bættu enn í forskotið á síðustu tveimur sérleiðunum sem eknar voru í myrkri en það eru aðstæður sem íslenskir rallökumenn eru ekki vanir.

Birgir Guðbjörnsson og Valgarður Thomas Davíðsson á Subaru Impreza voru í öðru sæti í lok dags, 1:16 mín á eftir Ingva og Adam en aðeins tveimur sekúndum á undan Agnari Inga Sigurðssyni og Bessa Þrastarsyni á Mitsubishi Lancer Evo sem eru í þriðja sæti.

Í AB-varahlutaflokknum eru Daníel Valdimarsson og Hanna Rún Ragnarsdóttir með tíu sekúndna forskot á Halldór og Sigurgeir Guðbrandssyni en báðar áhafnir aka Subaru Impreza. Í E-1000 flokknum hafa Elmar Sveinn EInarsson og Markús Andri Sæmundsson nokkuð örugga forystu en þeir aka Toyota Aygo.

Nítján áhafnir voru skráðar í keppnina og eftir 101,2 kílómetra á sérleiðum gærkvöldsins komust fimmtán bílar í endamark.

Keppni heldur áfram í dag en þá verða eknir samtals 160 kílómetrar á sérleiðum um Kaldadal og Uxahryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert