Handtekinn skömmu fyrir leik og skoraði svo

Tyreek Hill ánægður eftir sigurinn í gær.
Tyreek Hill ánægður eftir sigurinn í gær. AFP/Megan Briggs

Tyreek Hill, leikmaður Miami Dolphins í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi, var handtekinn stuttu áður en hann lék gegn Jacksonville Jaguars í fyrstu umferð deildarinnar í gærkvöldi. Var Hill sleppt og skoraði svo snertimark í 20:17-sigri.

Fagnaði hann markinu með því að þykjast vera settur í járn. Eftir leikinn ræddi Hill við fréttamenn.

„Ég sýndi enga vanvirðingu því móðir mín ól mig ekki upp þannig. Ég blótaði ekki, gerði ekkert slíkt. Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað gerðist,“ sagði Hill og kvaðst ekki vita nákvæmlega af hverju hann hafi verið færður í járn.

Liðsfélagi Hills, Calais Campbell, var einnig handtekinn þegar hann sá Hill í járnum, að eigin sögn fyrir að reyna að greiða úr aðstæðum.

Verður að fara varlega

„Ég gerði það sem frændi minn sagði mér að gera ef ég lenti í svona aðstæðum: hlusta og setja hendurnar á stýrið. Maður verður að fara varlega.

Þeir sögðu að ég hafi verið að aka of hratt en ég veit það ekki. Þeir sögðu mig hafa ekið of hratt, ekið glannalega, ég veit það ekki alveg,“ bætti Hill við.

Einn lögregluþjónn hefur verið sendur í tímabundið leyfi eftir handtökuna.

„Það ætti að segja þér allt sem þú þarft að vita,“ sagði Hill er honum var tilkynnt um að lögregluþjónninn hafi verið sendur í leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert