Þrjú silfur, brons og Íslandsmet

Birgit Rós Becker þjálfari með Þorbjörgu Matthíasdóttur og Örnu Ösp …
Birgit Rós Becker þjálfari með Þorbjörgu Matthíasdóttur og Örnu Ösp Gunnarsdóttur. Ljósmynd/Kraft

Þorbjörg Matthíasdóttir náði afar góðum árangri á Vestur-Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum en mótið er í fullum gangi á Möltu.

Þorbjörg, sem keppir í + 84 kg flokki, lyfti mest 185 kg í hnébeygju og hlaut brons í greininni. Í bekkpressu bætti hún sig og fór upp með 102.5 kg og fékk silfur fyrir þann árangur.

Réttstöðulyftan gekk líka mjög vel þar sem hún bætti persónulegan árangur sinn um heil 12.5 kg þegar hún lyfti 192.5 kg og hlaut fyrir það silfurverðlaun. Samanlagt lyfti hún 480 kg og nældi sér þar í silfurverðlaun fyrir heildarárangur.

Arna Ösp Gunnarsdóttir í -69 kg flokki sló heldur ekki slöku við og bætti líka sinn árangur. Arna lyfti mest 157.5 kg í hnébeygju sem er bæting á hennar eigin Íslandsmeti.

Í bekkpressu jafnaði hún sitt besta með 90 kg lyftu og í réttstöðu náði hún mest að lyfta 175 kg. Samanlagt lyfti hún 422.5 kg sem er líka nýtt Íslandsmet og gaf sá árangur henni 6. sætið í flokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert