Hnefaleikakappinn Emin Kadri Eminsson vann sinn fyrsta atvinnubardaga á ferlinum þegar hann hafði betur gegn Isaías Reyes frá Mexíkó í fjórum lotum í Las Vegas í Bandaríkjunum um liðna helgi.
Emin vann allar fjórar loturnar og var dómaraúrskurðurinn einróma, 40:36, honum í vil.
Hann er 21 árs gamall og hefur æft hnefaleika frá því hann var tíu ára gamall. Sem áhugamaður hefur Emin keppt um 50 bardaga og til að mynda tekið þátt á heims- og Evrópumeistaramóti.
Í fréttatilkynningu segir að hann stefni að því að keppa sinn annan atvinnubardaga í febrúar á næsta ári, einnig í Bandaríkjunum.