Úrskurðaður í eins árs bann

Praveen Jayawickrama við keppni í krikket.
Praveen Jayawickrama við keppni í krikket. AFP/Ishara S. Kodikara

Praveen Jayawickrama, krikketspilari frá Srí Lanka, hefur verið úrskurðaður í eins árs bann frá öllum afskiptum af íþróttinni eftir að hafa brotið gegn reglum Alþjóðakrikketsambandsins, ICC, um spillingu.

Jayawickrama greindi ekki frá því að gerð hafi verið tilraun til þess að fá hann til að hagræða úrslitum og hindraði rannsókn á málinu.

Hinn 26 ára gamli Jayawickrama viðurkenndi sök og fer strax í eins árs bann. Þar af er hálft ár skilorðsbundið.

ICC greinir frá því að óprúttnir aðilar hafi reynt að fá hann til þess að hagræða úrslitum í landsleikjum með Srí Lanka auk þess sem hann hafi verið beðinn um að fá einn liðsfélaga sinn hjá félagsliði til þess að gera slíkt hið sama tímabilið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert